Tilkynnt var um fjögur innbrot á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Virðist því ekkert lát á innbrotahrinu sem gengið hefur yfir svæðið frá því á föstudag og eru skráðar tilkynningar orðnar á sjöunda tug. Allir komust þjófar næturinnar undan. Að öðru leyti var nóttin róleg hjá lögreglu.
Þjófar létu meðal annars greipar sópa í Herralagernum, sem er eins og nafnið gefur til kynna herrafataverslun. Þjófarnir sóttu aðallega í leðurjakka og tóku "slatta" af þeim, að sögn varðstjóra hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins.
Þá var fjórhjóli stolið af bílasölunni Bílabankanum við Eirhöfða og unnar skemmdir á Pulsuvagninum í Laugardal. Einnig var stolið skiptimynt í Pulsuvagninum.
Að lokum var farið inn í mannlaust hús við Eikjuvog en ekki er enn vitað hverju var stolið í því innbroti.