Meintir fjársvikarar frjálsir

Fangaklefi á Litla Hrauni.
Fangaklefi á Litla Hrauni. mbl.is/Brynjar Gauti

Fjórir menn, sem handteknir voru í tengslum við rannsókn á tugmilljóna króna fjársvikamáli í júlí, eru lausir úr haldi. Tveimur mannanna var sleppt í gær og tveimur í dag. Enginn er í haldi vegna rannsóknar málsins en að sögn lögreglu stendur rannsókn enn yfir.

Um miðjan júlí barst efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra kæra á hendur fimm mönnum vegna skjalafals og fjársvika. Mennirnir voru kærðir fyrir að hafa sölsað undir sig tvö hlutafélög með fölsuðum undirskriftum og í framhaldi af því falsað ýmis önnur gögn í þeim tilgangi að svíkja út fé frá lánastofnunum, m.a. lán hjá Íbúðalánasjóði vegna tveggja fasteigna.

Fjórir menn voru handteknir vegna rannsóknar málsins. Sá fyrsti var handtekinn 22. júlí en þrír í kjölfar þess. Allir voru þeir úrskurðaðir í gæsluvarðhald og einangrun. Þrír mannanna kærðu úrskurði héraðsdóms til hæstaréttar , sem staðfesti úrskurðina.

Fimmti maðurinn var ekki handtekinn. Málið er að sögn lögreglu umfangsmikið, með umtalsverða fjármuni. Þá virðist það vera þaulskipulagt þar sem fjölmargar ríkisstofnanir voru blekktar og fjármunum náð með sviksamri háttsemi.

Líkur hafa verið leiddar að því að mennirnir hafi aðeins verið peð í umfangsmeiri glæpastarfsemi en ekkert hefur fengist staðfest í þeim efnum.

Mönnunum fjórum sem handteknir voru, hefur nú verið sleppt. Tveir voru látnir lausir í gær og tveir í dag. Ekki fengust upplýsingar um hvort mennirnir hefðu játað brot sín. Lögregla segir að rannsókn málsins standi enn yfir og því sé ekki hægt að svara efnisatriðum er hana varðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert