Bretar rannsaka íslensku bankana

Bretar hafa sett aukinn kraft í rannsókn á íslensku bönkunum …
Bretar hafa sett aukinn kraft í rannsókn á íslensku bönkunum eftir lekann í Kaupþingi. mbl.is/Golli

Sérstök rannsóknarstofnun í Bretlandi sem rannsakar fjársvik, Serious Fraud Office, hefur hafið ítarlega og sjálfstæða rannsókn á íslensku bönkunum.

Í kjölfar lekans á gögnum um stórar áhættuskuldbindingar Kaupþings til internetnetsíðunnar Wikileaks.org hefur rannsóknin verið efld, að því er fram kemur á vefútgáfu breska dagblaðsins The Telegraph. 

Sérstakt teymi á vegum SFO er að rannsaka skýrsluna um áhættuskuldbindingar, en hún hefur að geyma öll einstök lán Kaupþings til viðskiptavina yfir 45 milljón evrur. Stofnunin hefur einnig fengið upplýsingar um bresku útibú íslensku bankanna frá fjölmörgum fyrrverandi starfsmönnum, fjárfestum og viðskiptavinum. 

Stofnunin er sögð vera að leita að fleiri einstaklingum sem hafa tengsl við bankana til að stíga fram og tjá sig. Í skýrslunni um lánin hjá Kaupþingi eru upplýsingar um meiriháttar lánveitingar til eigenda Kaupþings og tengdra aðila. Mörg þessara lána eru með engum eða mjög litlum veðtryggingum. Margir viðskiptavinir fengu jafnframt lán hjá bankanum til að kaupa hlutabréf í Kaupþingi þar sem einu tryggingarnar voru bréfin sjálf. 

Ekki með vitund og vilja íslenskra stjórnvalda

Þrátt fyrir að ekki sé formlega hafin rannsókn vegna gruns um refsiverða háttsemi hefur sérstakt teymi á vegum SFO verið að skoða íslensku bankana Kaupþing, Glitni og Landsbankann í marga mánuði, eða síðan bankakerfið á Íslandi hrundi í október á síðasta ári. 

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, sagði í samtali við mbl.is í morgun að Serious Fraud Office hefði ekki verið í formlegum samskiptum við embætti sérstaks saksóknara og ekki hefði verið óskað eftir gögnum frá embættinu. Hann sagði að starfsmenn sérstaks saksóknara hefðu fyrst fengið fregnir af rannsókn bresku stofnunarinnar í gegnum fjölmiðla. 

Frétt Telegraph

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka