Skrifuðu illvirki á húsið

Í nótt var slett grænni málningu á einbýlishús Rannveigar Rist forstjóra Alcan og skrifað illvirki utan á húsið. Lögreglan virðist vera ráðþrota gagnvart hópi sem hefur slett málningu á hús einstaklinga sem tengjast útrásinni, fjármálafyrirtækjum, ýmsum embættismönnum og talsmönnum ál og orkufyrirtækja.

Tilvikin eru á annan tug talsins en enginn hefur verið handtekinn eða yfirheyrður.  Forsprakkarnir hættu nýlega að nota vatnsmálningu og nota nú olíumálningu sem gerir hreinsunarstarfið erfiðara. Hörður Jóhannesson yfirlögregluþjónn segir að þeir sem standi á bak við þetta vilji greinilega vekja athygli á einhverjum málstað en lögreglan líti fyrst og fremst á þetta sem eignaspjöll. Það sé ansi langt gengið að beina þessum aðgerðum að einkaheimilum fólks en ekki þeim fyrirtækjum og stofnunum sem fólkið vinni hjá.

Hörður svarar því neitandi að lögreglan sé að horfa í gegnum fingur sér með þetta vegna ástandsins í þjóðfélaginu, þetta gerist hinsvegar vanalega að næturlagi og lögreglan fái fyrst vitneskju um það í morgunsárið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert