Stjórn Kaupþings harmar skaðann af lögbanninu

Stjórn Kaupþings hefur sent starfsmönnum bankans tölvupóst þar sem fram kemur að hún hafi ekkert haft með ákvörðun bankastjórans um lögbannskröfu á fréttir Ríkisútvarpsins að gera. Þetta kemur fram á vefnum Pressan.is.

Nýja Kaupþing og skilanefnd gamla Kaupþings fóru fram á lögbann á fréttaflutning RÚV af lánabók Kaupþings sem hafði verið lekið á netið. Málið var tekið fyrir á stjórnarfundi Kaupþings í gær og þar var gerð bókun um málið, þar sem skaðinn af því er harmaður.

Á vef Pressunnar segir að afstaða stjórnarinnar hafi komið stjórnendum bankans í opna skjöldu, því heimildir séu fyrir því að Huldu Dóru Styrmisdóttur, formanni stjórnar bankans, hafi verið kunnugt um efni fréttatilkynningar bankans um lögbannið og m.a. gert athugasemdir um orðalag hennar.

Bréf stjórnar Kaupþings til starfsmanna:

„Nýja Kaupþing varð til eftir hrun íslenska bankakerfisins þegar traust á  fjármálastofnunum hafði beðið skipbrot. Stjórn hins nýja banka hefur lagt kapp á að byggja upp traust á starfsemi bankans. Ein meginstoð bankastarfsemi er að viðskiptavinir geti treyst því að upplýsingar sem þá varða séu ekki aðgengilegar óviðkomandi.

Stjórn Nýja Kaupþings lýsir því þungum áhyggjum af því að upplýsingar sem varða núverandi viðskiptavini bankans og falla undir lög um bankaleynd séu öllum aðgengilegar. Jafnframt er vakin er athygli á því að trúnaðarupplýsingar sem til urðu í starfsemi gamla Kaupþings eru í vörslu ýmissa aðila og bent á mikilvægi þess að allir sem búa yfir slíkum gögnum yfirfari meðferð sína á trúnaðarupplýsingum. Rík áhersla er lögð á grandvara meðferð trúnaðarupplýsinga hjá Nýja Kaupþingi.

Stjórnin telur nauðsynlegt að fá allt upp á borðið sem varðaði hrun bankakerfisins. Hún treystir því að yfirstandandi rannsóknir muni leiða í ljós upplýsingar um orsakir og að helstu gerendur verði kallaðir til ábyrgðar samkvæmt réttum lögum.

Stjórn Nýja Kaupþings banka átti ekki þátt í ákvörðun bankastjóra sl. laugardag um lögbann á fréttaflutning RÚV af efni sem er öllum aðgengilegt á netinu og telur það ekki hafa þjónað hagsmunum bankans eða því yfirlýsta markmiði að standa vörð um trúnaðarupplýsingar. Stjórnin harmar þann skaða sem af málinu hefur hlotist fyrir orðspor bankans.“
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert