Tvö félög, sem stofnuð voru af Kaupþingi í ágúst 2008 og skráð á Tortola-eyju, skulduðu bankanum milljarða króna mánuði síðar. Félögin voru Holly Beach S.A. í eigu Skúla Þorvaldssonar og Trenvis LTD í eigu Kevin Stanford.
Stanford var fjórði stærsti hluthafi Kaupþings á þessum tíma með 4,3% í bankanum og Holt Investment Group, annað félag í eigu Skúla, átti tæp 3,1%. Þeir Skúli og Stanford voru stærstu einstöku lántakendur Kaupþings í Lúxemborg. Lán og lánalínur til félaga í eigu Skúla námu alls 651,7 milljónum evra (um 117,3 milljörðum króna á núvirði) í septemberlok í fyrra, samkvæmt vinnuskjali, sem lekið var á netið fyrir helgi. Lán til Stanfords námu 374,8 milljónum evra. Veð fyrir lánum til Skúla voru m.a. skuldabréf frá Kaupþingi, en skuldabréf Kaupþings í eigu Skúla voru metin á 71,6 milljónir evra. Alls voru veð hans metin á 437,4 milljónir evra, eða um 67% af upphæð lána til hans.
Trenvis LTD, félag Kevins Stanford, fékk 41,7 milljón evrur (7,5 milljarða króna) að láni frá Kaupþingi í þeim tilgangi að kaupa afleiður tengdar skuldatryggingum á Kaupþing sjálft. Eru þetta svipuð viðskipti og Sheikh Mohammed Bin Khalifa Al-Thani var sagður hafa átt fyrir hrun Kaupþings síðasta haust.
Heildarlán til Stanford námu 374,8 milljónum evra (um 67,5 milljörðum króna) og veð fyrir þeim námu 397,8 milljörðum. Stór hluti þeirra var hins vegar hlutabréf í Kaupþingi og Baugi og eru þau einskis virði nú.