Fréttaskýring: Þurfa breyttar reglur um bankaleyndina

Stjórnendur Nýja Kaupþings ákváðu að falla frá lögbanni á fréttir …
Stjórnendur Nýja Kaupþings ákváðu að falla frá lögbanni á fréttir um lánabók gamla Kaupþings, vegna þrýstings frá samfélaginu. mbl.is/Golli

Við leggjum mikla áherslu á það að við virðum trúnaðarsambandið við alla viðskiptavini. Eins og þagnarskylduákvæðið er núna ber okkur undantekningalaust að gera það,“ segir Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Nýja Kaupþings. Á aðfaranótt þriðjudags féllu bankinn og skilanefnd gamla bankans frá lögbannskröfu sinni vegna fréttaflutnings Ríkisútvarpsins af lánabók gamla Kaupþings, sem nú hefur verið birt á netinu.

Finnur kallar þess vegna eftir því að reglum um þagnarskylduna verði breytt, sé það vilji almennings og stjórnmálamanna, svo bankar geti starfað innan þess lagaramma sem þeim er settur, eins og Finnur orðar það. „Það er ekki hægt að skilja þetta eftir í lausu lofti,“ segir hann.

Finnur segir ennfremur að enginn stjórnmálamaður hafi haft beint samband við sig til að þrýsta á um afturköllun lögbannsins. Finnur segir hins vegar að umræða helgarinnar þar sem m.a. tveir ráðherrar og formaður viðskiptanefndar Alþingis tjáðu sig sýni að skiptar skoðanir séu um þagnarskyldu fjármálafyrirtækja.

Rætt í ríkisstjórn

„Ég tel til dæmis engan vafa leika á því að menn mega upplýsa um það hvað varð bönkunum að falli, óhóflegar lánveitingar og annað slíkt sem hefur verið í umræðunni undanfarna daga,“ segir Gylfi.

Á fundinum lagði Gylfi fram minnisblað um þá vinnu sem hefur farið fram innan viðskiptaráðuneytisins varðandi bankaleynd. Á hann von á að geta lagt fram lagafrumvarp með tillögum um breytingar á bankaleynd í haust. Þar verði tekið á ýmsum álitamálum, þar með talið hvort það þurfi að skýra ákvæði sem snúa að birtingu fjölmiðla á upplýsingum.

Í lánabókinni, sem nú er aðgengileg á vefsíðunni wikileaks.org, eru upplýsingar um lán til 206 viðskiptavina gamla bankans, upphæðir, ábyrgðir og áhættuþætti. Sumir af þessum viðskiptavinum eru enn í dag viðskiptavinir nýja bankans og var það ástæða þess að stjórnendur hans vildu lögbannið.

Aðspurður neitar Finnur Sveinbjörnsson því að borið hafi á úttektum úr bankanum eftir að málið kom upp. Hins vegar hafi borið á óánægju í umræðu helgarinnar. Hætta hafi þess vegna verið á því að ef umræðan héldi áfram á þeim nótum sem hún var, þá hefði það skapað meira tjón en ávinning að halda lögbanninu til streitu.

Vernd uppljóstrara

Í fyrsta lagi er þar lagt bann við því að opinberir aðilar reyni að komast að því hver það er sem hefur lekið upplýsingum. Sé það hins vegar gert, í trássi við prentfrelsisákvæði sænsku stjórnarskrárinnar, getur sá sem það gerir átt von á sektum eða fangelsi allt að einu ári.

Þá er einnig kveðið á um refsingu fyrir þann sem upplýsir um nafn þess sem undir nafnleynd greinir frá upplýsingum sem varða almannahag. Getur sá sem upplýsir um nafnið einnig búist við sektum eða fangelsi allt að einu ári.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert