Sumarbústaðaeigendur eru sumir hverjir svo duglegir að vökva garða sína að dreifikerfið annar ekki notkuninni og hús sem standa ofar í byggðinni verða vatnslaus.
Að sögn Margeirs Ingólfssonar oddvita í Bláskógabyggð sem býr yfir nýju og öflugu dreifikerfi hefur vatnsnotkunin verið svo mikil síðustu vikur að ekkert dreifikerfi gæti staðist áhlaupið.
Í einu sumarhúsahverfi í nágrenni við Flúðir var vatnsnotkunin um nýliðna helgi meiri en í öllu Flúðahverfi og nærliggjandi sumarhúsum, jafnvel þó gróðurhús væru tekin með í reikninginn.