Á móti nafnlausum ábendingum

Fiskistofa hefur áhuga á að styðjast við nafnlausar ábendingar.
Fiskistofa hefur áhuga á að styðjast við nafnlausar ábendingar. Reuters

Persónuvernd mælist til þess við Fiskistofu að stofnunin ræki eftirlitshlutverk sitt með öðrum hætti en að setja á heimasíðu sína skilaboð sem hvetja menn til að eiga við hana nafnlaus samskipti. Í svarinu er m.a. vísað í álit umboðsmanns Alþingis og til álits ráðgjafarhóps Evrópusambandsins um túlkun reglna um persónuvernd.

Fiskistofa vinnur nú að endurskoðun á vefsíðum stofnunarinnar og er m.a. að skoða þann möguleika að þar verði hægt að koma á framfæri ábendingum (undir nafni eða nafnlaust) um meint brot gegn reglum sem Fiskistofa hefur eftirlit með. Ef af verður má gera ráð fyrir að þetta verði með svipuðu sniði og sjá má á heimasíðum Fjármálaeftirlitsins, Samkeppniseftirlitsins og skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Í svari Persónuverndar segir að ekki sé hægt að útiloka að nafnlausar ábendingar til stjórnvalda geti við ákveðnar aðstæður átt rétt á sér svo sem þegar sendandi er ekki í aðstöðu til að koma fram undir nafni. "Þó er, í ljósi almennra sjónarmiða um einkalífsrétt, gagnsæi, sanngirni og vandaða stjórnsýslu, eðlilegt að slíkt heyri til algerra undantekninga. Vafa er undirorpið að hægt sé að taka upp almenna framkvæmd á ákveðnum sviðum stjórnsýslunnar um nafnleysi tilkynnanda nema að það styðjist við sérstaka lagaheimild. Sem dæmi um slíka lagaheimild má benda á 19. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Skal hver segja á sér deili sem sendir tilkynningu til barnaverndarnefndar en ósk um nafnleynd virt ef alveg sérstakar ástæður mæla með því.

Í ljósi alls sem að framan er rakið, og þeirrar hættu sem því getur fylgt fyrir grundvallarréttindi skráðra einstaklinga ef komið verður upp kerfi sem auðvelt er að misnota, er Fiskistofu leiðbeint um að rækja hlutverk sitt með öðrum aðferðum en þeim að setja á heimasíðu sína skilaboð sem hvetja menn til að eiga við hana nafnlaus samskipti."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert