Eftir Agnesi Bragadóttur og Skúla Á. Sigurðsson
Fjárlaganefnd mun gera fyrirvara við Icesave-samninginn um að hámarksgreiðsla vegna hvers reiknings verði ekki yfir 20.887 evrum. Þetta herma heimildir Morgunblaðsins. Þá verði gerður fyrirvari um það að Íslendingar skuldbindi sig ekki til þess að greiða niður Icesave-lánin lengur en til ársins 2024.
Talið er að þeir fyrirvarar sem settir verða við samkomulagið jafngildi nýjum samningi. Þá er talið ólíklegt að viðsemjendurnir fallist á lánveitingar til Tryggingasjóðs innstæðueigenda þar sem ábyrgð ríkisins verði svo takmörkuð.
Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, segir fyrirvara við ríkisábyrgðina hafa verið rædda í nefndinni. Þeir lúti helst að endurskoðunarákvæðum og því hvað þurfi að koma til svo að samningurinn verði tekinn upp að nýju. Segir Guðbjartur að reynt sé að setja fyrirvarana fram þannig að þeir rúmist innan samningsins en hafi einnig bindandi áhrif.
„Það er ákveðið svigrúm [í samningnum] sem menn hafa til að hreyfa sig í,“ segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra. Hann kveður ekki hægt að breyta samningnum einhliða en telur að fyrirvarar sem fjárlaganefnd setji hljóti að rúmast innan áðurnefnds svigrúms.
Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir stífa fyrirvara við Icesave-samninginn í raun ígildi höfnunar samningsins þar sem í honum hafi verið kveðið á um skilyrðislausa ríkisábyrgð.
„Það er ljóst að svona fyrirvarar sem eru settir eftir á af hálfu Íslands binda með engum hætti Hollendinga og Breta,“ segir Birgir.