Kreditkortavelta heimila dróst saman um 11,9% í janúar–júní í ár miðað við sömu mánuði í fyrra. Í Hagvísum Hagstofunnar kemur fram að debetkortavelta jókst á sama tíma um 2,3%. Samtals dróst innlend greiðslukortavelta heimila í janúar–júní 2009 saman um 5,2%.
Greiðslukortavelta Íslendinga erlendis dróst saman um 25,6% en erlend greiðslukortavelta hérlendis jókst um 77,5% í janúar–júní 2009 miðað við sömu mánuði 2008.
Tölur um greiðslukortaveltu erlendra aðila hérlendis janúar 2008–júní 2009 hafa verið endurskoðaðar og hefur það leitt til frekari hækkunar á þessum lið á umræddu tímabili.
Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 18,2% (miðað við meðaltal vísitölunnar í janúar–júní), það hefur í för með sér 19,8% raunlækkun á innlendri greiðslukortaveltu.
Nýskráningar bíla í janúar–júlí voru 2.132 sem er 79,7% fækkun frá janúar–júlí í fyrra. Síðastliðna 12 mánuði, til loka júlí, voru nýskráningar bíla 3.951 en það er 79,8% fækkun frá fyrra tólf mánaða tímabili.
Launabreytingar
Launavísitala í júní hækkaði um 0,2% frá fyrra mánuði. Síðastliðna 12 mánuði hefur vísitalan hækkað um 3,0%. Vísitala neysluverðs hækkaði á sama tíma um 11,3%. Kaupmáttur launa mældist því 7,4% minni í júní 2009 en á sama tíma árið áður. Meðalkaupmáttur fyrstu sex mánaða þessa árs er 8,1% minni en á sama tímabili á síðasta ári.