Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur í félags- og tryggingamálaráðuneytinu, er formaður þriggja manna nefndar sem falið hefur verið að endurskoða löggjöf er lýtur að úrræðum fyrir heimili og einstaklinga í greiðsluerfiðleikum. Aðrir í nefndinni eru Benedikt Stefánsson, sem tók við sem aðstoðarmaður viðskiptaráðherra í fyrradag, og Ása Ólafsdóttir, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra.
Kristrún var aðstoðarmaður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra.
Tillögur í haust
Félags- og tryggingamálaráðherra, Árni Páll Árnason, kynnti ríkisstjórninni í lok síðasta mánaðar að sett yrði á fót nefnd til að endurskoða löggjöf og úrræði fyrir skuldsett heimili. Er nefndinni jafnframt ætlað að leggja fram tillögur um leiðir til að styrkja stöðu lántakenda á fjármálamarkaði. Skal nefndin starfa í náinni samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, enda varði verkefni hennar stöðugleikasáttmála þeirra og stjórnvalda, sem undirritaður var hinn 25. júní síðasliðinn, að því er segir í tilkynningu frá félags- og tryggingamálaráðuneytinu.