Frá því Icesave-reiknirinn var opnaður á mbl.is á þriðjudag hafa rúmlega 14 þúsund manns skoðað hann. Reiknirinn gerir fólki kleift að skoða lyktir Icesave-málsins samkvæmt fyrirliggjandi samningi eða öðrum forsendum sem hægt er að setja inn í reikninn. Er reikninum ætlað að varpa ljósi á þær skuldbindingar sem íslenska ríkið tekst á hendur með samningunum.
Í reikninum má sjá með skýrum hætti hvaða áhrif breyttar forsendur hafa á niðurstöðu málsins og lokauppgjör þess. Forsendur málsins eru sundurliðaðar í reikninum og ætti það að auðvelda öllum að átta sig á samningnum, sem hefur gjarnan verið sagður illskiljanlegur venjulegu fólki.
Öllum liðum fylgja skýringar sem hjálpa lesendum að átta sig á málinu. Þá eru tenglar í tengdar fréttir, greinar og fréttaskýringar við hvern lið sem varpa frekari ljósi á þau atriði sem til skoðunar eru.
Fyrirtækið Datamarket hannaði reikninn í samvinnu við Morgunblaðið.
Hægt er að nálgast reikninn með því að smella á hnappa á forsíðu mbl.is eða slá inn slóðina http://mbl.datamarket.net/icesave/