Makríll virðist vera helsta vandamál við síldveiðarnar sem nú eru hafnar á ný að lokinni verslunarmannahelgi. Börkur NK 122 landaði síld til vinnslu á Norðfirði á þriðjudag og var þar um 20% makríll á móti síldinni. Að sögn Sigurbergs Haukssonar, skipstjóra á Berki, er síldin sem fæst falleg en stefnan verður nú tekin norður til að forðast makrílinn.
Í reglugerð um síldveiðar segir að makrílafli skuli ekki fara yfir 10% af heildarafla á þriggja vikna tímabili. Þetta hefur gengið treglega, hvort sem skipin eru fyrir norðan eða austan land. Tólf skip eru á síldveiðum, flest norðaustur af Langanesi, þau fá nóg af makríl, stundum allt upp undir 40-50% að sögn Gunnþórs Ingvasonar, framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar á Neskaupsstað. Hann segir síldveiðina dræma.
„Makríllinn er vandamál, hann er úti um alla lögsöguna,“ segir Gunnþór. Ljóst sé að makríllinn hafi verið veiddur á kolröngum tíma. Snemmsumars kepptust útgerðir við að hala inn makríl upp að hinu óhefta sóknarmarki. Gunnþór segir að hægt hefði verið að skapa umtalsvert meiri verðmæti, því makríllinn sem nú veiðist er mun verðmætari en sá sem fékkst fyrr í sumar.