„Þessum tillögum var annars vegar ætlað að bæta samstarfið innan þingflokksins, en engum getur dulist að þau hafa verið mjög stirð síðan ESB-málið kom upp, og hins vegar að auka tengslin við grasrótina,“ segir Herbert Sveinbjörnsson, formaður Borgarahreyfingarinnar, um tvær tillögur sem stjórn hreyfingarinnar sendi þingmönnum flokksins fyrir um hálfum mánuði og gert var grein fyrir á almennum félagsfundi fyrr í kvöld. Allir þingmennirnir fjórir boðuðu forföll og sjálfur átti Herbert ekki heimangengt á fundinn sem boðað var til með skömmum fyrirvara.
Í fyrri tillögunni er lagt til að Birgitta Jónsdóttir hætti sem þingflokksformaður og kosinn verði nýr í hennar stað. Seinni tillagan kveður á um að aldrei verði færri en einn varaþingmaður fyrir Borgarahreyfinguna á þingi hverju sinni. Segir Herbert hugsunina með því vera að fleiri komi að starfi hreyfingarinnar á þingi og tengsl þingmanna við grasrótina verði bætt. Að sögn Herberts hafði stjórninni ekki borist nein formleg viðbrögð við tillögunum tveimur frá þingmönnum hreyfingarinnar og því hafi stjórninni þótt rétt að leggja spilin á borðið á almennum félagsfundi og ræða málin opinskátt.
Herbert segir samskiptaleysi þingmanna við stjórn og grasrót Borgarahreyfingarinnar m.a. hafa birst í því að þingmenn flokksins hafi sótt almenna félagsfundi illa eða alls ekki. Sem dæmi um samskiptaleysi nefnir hann að stjórnin hafi ekki frétt af viðsnúningi þriggja þingmanna hreyfingarinnar í ESB-málinu svonefnda fyrr en nóttina áður en málið fór í fjölmiðla. Sem kunnugt er greiddu Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari, atkvæði gegn tillögu ríkisstjórnarinnar um aðildarumsókn að ESB til að þrýsta á um að Icesave-málinu yrði frestað.
Tekur Herbert fram að ekkert hafi verið undan vinnubrögðum þingmannanna þriggja að kvarta fram að ESB-málinu og stjórn hafi sýnt því mikinn skilning að þingmenn flokksins hefðu ekki tíma til að mæta á félagsfundi vegna anna í þinginu.
„Við sýndum því líka skilning að Birgittu hefði snúist hugur í ESB-málinu, því fólk er í flokknum á sínum forsendum þó takmarkið sé stefnuskráin. Fólk má auðvitað alveg skipta um skoðun. Hins vegar tók steininn úr þegar hrossakaupin urðu,“ segir Herbert og vísar þar til þess að Birgitta, Margrét og Þór hafi boðist til þess að styðja tillögu ríkisstjórnarinnar um ESB-aðildarviðræður gegn því að Icesave-málinu yrði frestað.
„Borgarahreyfingin var stofnuð til höfuðs þeirri pólitík sem stunduð var af þingmönnum hreyfingarinnar á þessum tímapunkti. Við ætluðum að vera heiðarlega fólkið sem gerðum ekki svona hluti og mér sárnaði þetta mjög,“ segir Herbert.