Stór grjótskriða féll á Óshlíð

Mynd bb.is

Ein stærsta grjótskriða sem fallið hefur úr Óshlíðinni undanfarin ár féll niður á veginn á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur um klukkan hálf þrjú í nótt. Vefur Bæjarins besta hefur eftir starfsmönnum Vegagerðarinnar að mikil mildi sé að engin umferð hafi verið um hlíðina þegar skriðan féll því þá hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum.

Vegurinn lokaðist vegna þessa en það voru vegfarendur sem tilkynntu um skriðuna til lögreglu. Vegagerðin hafði hreinsað veginn hálftíma síðar. Skriðan, sem vó tugi tonna, eyðilagði ljósastaur og sex járnstaura sem halda uppi járnneti til varnar veginum en hún náði yfir um 250 metra vegakafla. Þá er nokkuð um vegaskemmdir eftir stórgrýti sem valt úr hlíðinni og í sjó fram.

bb.is segir að hugsanlega megi rekja grjótskriðuna til mikillar rigningar á Vestfjörðum undanfarna daga en sjá má ummerki um mikið berglos í fjallinu.

Fleiri myndir af skriðufallinu er að finna á vef Bæjarins besta

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka