Forsætisráðuneytið kemur til með að greiða tæplega 300 milljónir króna fyrir sérfræði- og ráðgjafaþjónustu vegna efnahagshrunsins. Ríkisendurskoðun telur að forsætisráðuneytið þurfi að endurskoða verklag sitt við kaup á sérfræði- og ráðgjafarþjónustu.
Í byrjun mars sl. fór forsætisráðuneytið þess á leit við Ríkisendurskoðun að stofnunin athugaði samninga ráðuneytisins um kaup á sérfræði- og ráðgjafarþjónustu, einkum þá sem gerðir voru í kjölfar bankahrunsins. Í bréfi stofnunarinnar til forsætisráðherra, dags. 22. júní sl., kemur fram að umræddir samningar byggjast yfirleitt ekki á útboðum eins og reglur kveða á um. Ekki er þó gerð athugasemd við að ráðuneytið skuli ekki hafa efnt til útboða vegna kaupa á þjónustu haustið 2008, enda heimila lög um opinber innkaup að sneitt sé hjá útboði ef um aðkallandi neyðarástand er að ræða. Hins vegar telur stofnunin að ráðuneytinu hafi borið að bjóða út þjónustu sem keypt var síðar eða þegar telja má að neyðarástand hafi verið liðið hjá.
Leiki vafi á því hvort kaup séu útboðsskyld eigi ráðuneytið að leita ráða hjá Ríkiskaupum. Í tengslum við athugunina óskaði Ríkisendurskoðun eftir því við Ríkiskaup að gefnar yrðu út stuttar leiðbeiningar um kaup á ráðgjöf og fylgdu þær með bréfinu.
Forsætisráðuneytið keypti þjónustu af átta sérfræðingum í tengslum við efnahagshrunið. Stærsta upphæðin fór til bresku lögfræðistofnunnar Lovells LLP, en hún veitti ráðgjöf vegna hugsanlegra málaferla ríkisins við bresk stjórnvöld og aðstoð vegna samskipta við Eftirlitsstofnun EFTA. Alls kostaði þjónusta lögmannsstofnunnar 109,3 milljónir króna.
Áætlað er að alls greiði forsætisráðuneytið 296,2 milljónir fyrir sérfræðiráðgjöf sem tengist hruninu. Þegar er búið að greiða 225 milljónir vegna þessa.