Eggert Jóhannsson feldskeri segist ekki setja sig upp á móti nýjum nágrönnum svo lengi sem þeir haga sér kurteisislega.
Hústökufólk hefur sest að í húsi við hlið verslunarinnar sem er ofarlega á Skólavörðustíg. Steinar Kristinn Sigurðsson einn þeirra segir húsið hafa staðið autt í langan tíma og verið beinagrind í annars fallegri götu. Hann segir fólkið hafa unnið að því að skipta út brotnum rúðum og hreinsa garðinn og húsið. Það eigi að setja upp fríbúð og gallerí í skúr í garðinum.
Hústökufólkið hefur dvalið endrum og sinnum í húsinu í fjórar vikur en í gær beindist athygli lögreglu að húsinu þegar skipt var um brotnar rúður og nágrannar kvörtuðu undan brothljóðum. Steinar segist ekki vilja átök við lögregluna. Fólkið féllst á um miðjan dag í dag að fara ekki inn í húsið fyrr en eigandinn svaraði því hvort það mætti hafast við í húsinu.
Eggert Jóhannsson feldskeri segist ekki hafa áttað sig á þessu nýja nábýli fyrr en í dag. Hann segir ekkert fara fyrir þessu, þetta sé ekki stórmál. Það hafi staðið til að nýta þetta hús á ýmsa vegu en ekkert gengið eftir. Það geti ekki verið neinum til ama þótt fólkið haldi þarna til.
Hann óttast ekki átök hústökufólks og lögreglu og segir að fólkið hafi ekki komið illa fram. Hann hafi séð ýmsar byggingar rísa í Reykjavík, mikið af húsum fara afar illa og heilu hverfin drabbast niður.
Hann svarar spurningunni um hvort hann hafi samúð með málstað hústökufólkisins svona: ,,Það er spurning hvar samúðin á að liggja, hvort hún eigi að liggja með því að pólitíkusarnir séu svona ofsalega miklir drattarar, eða embættismannakerfið. Ég lít á þetta sem hver önnur mótmæli.”