Mikill verðmunur á grænmeti

Mikill munur er á verðlagningu á grænmeti milli verslana
Mikill munur er á verðlagningu á grænmeti milli verslana Árni Sæberg

Mikill verðmunur er á grænmeti á milli verslana, að því er fram kemur í  nýrri verðkönnun ASÍ. Þar kemur fram að íslenskar gulrætur kosta 347 kr. kg í Kaskó en 1.340 kr. kg í Nóatúni. Verðmunurinn er 286%.

Bónus oftast með lægsta verðið

Þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í matvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu miðvikudaginn 5. ágúst, kom í ljós að Bónus var með lægsta verðið á 38 vörutegundum af þeim 55 sem skoðaðar voru.

Mjólkin er ódýrust í Hagkaupum kostar 97 kr. lítrinn sem er 10,3% ódýrara en í Fjarðarkaupum, þar kostar lítrinn 107 kr.

Forverðmerking hamlar eðlilegri verðsamkeppni

Eins og verðlagseftirlitið hefur áður bent á er verðmunur forverðmerkta vara yfirleitt mun minni en á vörum verðmerktum í versluninni, að því er segir á vef ASÍ.

„Slík forverðmerking er bönnuð og hamlar eðlilegri verðsamkeppni. Brýnt er að samkeppnisyfirvöld tryggi að verðsamkeppni á þessum vörum verði með eðlilegum hætti," að því er segir á vef ASÍ.

Könnunin var gerð í eftirtöldum verslunum: Bónus Smáratorgi, Krónunni Lindum, Nettó í Hverafold og Kaskó Vesturbergi, Hagkaupum Skeifunni, Nóatún Nóatúni, Samkaup Úrval Miðvangi og Fjarðarkaup Hólshrauni. Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

ATHUGASEMD SETT INN KL 16:00 Í frétt á vef ASÍ kemur fram að 792% verðmunur sé á jöklasalati. Það kosti 1.660 kr kg í Hagkaupum þar sem það var dýrast en var ódýrast í Bónus á kr. 186 kr. / kg. 

Að sögn Gunnars Inga Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Hagkaupa er þetta rangt. Hvert kg af jöklasalati kosti 449 kr. en ekki 1.660 kr. Hins vegar hafi kálið verið vitlaust verðmerkt í versluninni þegar verðkönnunin var gerð.

Önnur athugasemd sett inn klukkan 16:39 Á vef ASÍ kemur fram að Hagkaup var oftast með hæsta verðið eða í 28 skipti. Samkvæmt töflu sem fylgir með fréttinni á vef ASÍ sést að það er ekki rétt heldur er það Nóatún sem átt er við.

Þriðja athugasemdin sett inn klukkan 17:26 Á vef ASÍ kemur fram að íslenskar agúrkur voru ódýrastar í Samkaup Úrval á 269 kr. / kg en dýrastar í Hagkaupum á 797 kr./ kg. mismunurinn er 214 %. Samkvæmt upplýsingum frá Hagkaup eru það lífrænt ræktaðar agúrkur sem kosta 797 krónur kg. Hins vegar kosta aðrar íslenskar agúrkur 350 kr. kg.

Nánari upplýsingar um verðkönnun ASÍ

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka