Mikill verðmunur er á grænmeti á milli verslana, að því er fram kemur í nýrri verðkönnun ASÍ. Þar kemur fram að íslenskar gulrætur kosta 347 kr. kg í Kaskó en 1.340 kr. kg í Nóatúni. Verðmunurinn er 286%.
Bónus oftast með lægsta verðið
Þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í matvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu miðvikudaginn 5. ágúst, kom í ljós að Bónus var með lægsta verðið á 38 vörutegundum af þeim 55 sem skoðaðar voru.
Mjólkin er ódýrust í Hagkaupum kostar 97 kr. lítrinn sem er 10,3% ódýrara en í Fjarðarkaupum, þar kostar lítrinn 107 kr.
Mjög lítill verðmunur var á forverðmerktum vörum eins og t.d SS vínarpylsum, 10 stk. í pakka var á 594 kr. í Bónus en 630 kr. hjá hinum verslununum utan Fjarðarkaupa en þar kostaði pakkinn 660 kr.Forverðmerking hamlar eðlilegri verðsamkeppni
Eins og verðlagseftirlitið hefur áður bent á er verðmunur forverðmerkta vara yfirleitt mun minni en á vörum verðmerktum í versluninni, að því er segir á vef ASÍ.
„Slík forverðmerking er bönnuð og hamlar eðlilegri verðsamkeppni. Brýnt er að samkeppnisyfirvöld tryggi að verðsamkeppni á þessum vörum verði með eðlilegum hætti," að því er segir á vef ASÍ.
Könnunin var gerð í eftirtöldum verslunum: Bónus Smáratorgi, Krónunni Lindum, Nettó í Hverafold og Kaskó Vesturbergi, Hagkaupum Skeifunni, Nóatún Nóatúni, Samkaup Úrval Miðvangi og Fjarðarkaup Hólshrauni. Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.
ATHUGASEMD SETT INN KL 16:00 Í frétt á vef ASÍ kemur fram að 792% verðmunur sé á jöklasalati. Það kosti 1.660 kr kg í Hagkaupum þar sem það var dýrast en var ódýrast í Bónus á kr. 186 kr. / kg.
Að sögn Gunnars Inga Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Hagkaupa er þetta rangt. Hvert kg af jöklasalati kosti 449 kr. en ekki 1.660 kr. Hins vegar hafi kálið verið vitlaust verðmerkt í versluninni þegar verðkönnunin var gerð.
Önnur athugasemd sett inn klukkan 16:39 Á vef ASÍ kemur fram að Hagkaup var oftast með hæsta verðið eða í 28 skipti. Samkvæmt töflu sem fylgir með fréttinni á vef ASÍ sést að það er ekki rétt heldur er það Nóatún sem átt er við.
Þriðja athugasemdin sett inn klukkan 17:26 Á vef ASÍ kemur fram að íslenskar agúrkur voru ódýrastar í Samkaup Úrval á 269 kr. / kg en dýrastar í Hagkaupum á 797 kr./ kg. mismunurinn er 214 %. Samkvæmt upplýsingum frá Hagkaup eru það lífrænt ræktaðar agúrkur sem kosta 797 krónur kg. Hins vegar kosta aðrar íslenskar agúrkur 350 kr. kg.