Fréttaskýring: Sjóðurinn tæmist á næsta ári að óbreyttu

Iðnaðarmenn hafa borið sig vel í sumar að sögn verkalýðsforingja …
Iðnaðarmenn hafa borið sig vel í sumar að sögn verkalýðsforingja að norðan en þeir hafa miklar áhyggjur af auknu atvinnuleysi í haust. mbl.is/Eggert

Fyrstu sjö mánuði ársins hafa útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna atvinnuleysisbóta numið 14,9 milljörðum króna. Heildarútgjöld vegna atvinnuleysisbóta á árinu stefna í að verða á milli 25 og 25,5 milljarðar samkvæmt upplýsingum frá rekstrarsviði Vinnumálastofnunar.

Til samanburðar voru heildarútgjöld vegna atvinnuleysisbóta árið 2008 4,5 milljarðar en það nemur aðeins tveggja mánaða útgjöldum á þessu ári.

„Hann tæmist ekki þetta árið,“ segir Sigurður P. Sigmundsson, sviðsstjóri rekstrarsviðs Vinnumálastofnunar, um stöðu atvinnuleysistryggingasjóðs. Sjóðurinn hefur tekjur af svokölluðu atvinnutryggingagjaldi sem var þrefaldað 1. júlí síðastliðinn. „En það er ekki nægilegt fyrir árið 2010 ef fram heldur sem horfir,“ segir Sigurður um horfur á stöðu sjóðsins. Atvinnutryggingarnar muni skila 15-16 milljörðum í sjóðinn á næsta ári. „En það hrekkur skammt þegar útgjöld sjóðsins gætu orðið á milli 25 og 30 milljarðar. Miðað við núverandi tekjustofn og horfur á atvinnuleysi mun sjóðurinn tæmast á næsta ári,“ segir Sigurður.

10,6% atvinnuleysi framundan

Útgjaldaútreikningar Vinnumálastofnunar miðast við að meðalatvinnuleysi á árinu verði 8,4%. „Eins og staðan er í dag þá var atvinnuleysið komið niður í 8,1% í júní og við spáum að það fari lækkandi og verði komið niður í 7,5% í september. Svo fari það vaxandi og verði 8,4% í október. 9,6% í nóvember og 10,6% í desember,“ segir Sigurður. Til samanburðar var atvinnuleysi í desember í fyrra 4,8% en það sem af er ári fór atvinnuleysi hæst í 9,1% í apríl.

Inn í spárnar tekur Vinnumálastofnun m.a. fyrirsjáanlegan niðurskurð á verkefnum hjá ríki, sveitarfélögum og fyrirtækjum.

„Mjög þungt í fólki“

Fjallað var um það í Morgunblaðinu í gær að viðamikill hluti sáttarinnar á vinnumarkaði væri háður því að kraftur yrði settur í undirbúning stórframkvæmda af ýmsu tagi sem muni auka atvinnu, kynda undir hagvexti og afla tekna.

„Mín tilfinning er sú að það verði svolítið bágt hjá okkur í haust og atvinnuleysi muni aukast,“ segir Finnbjörn A. Hermannsson, formaður Sambands iðnfélaga. „Af þeim verkefnum sem talað er um verða fá komin af stað í haust. Við teljum að menn helst verði að leita í smáverkefnamarkaðinn, ef fyrirtækin geta skapað einhver verkefni,“ segir Finnbjörn.

Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar, stéttarfélags á Húsavík, segir þungt í fólki þrátt fyrir bjart sumar. „Almennt hafa iðnaðarmenn borið sig vel í sumar en menn hafa miklar áhyggjur af haustinu,“ segir Aðalsteinn. „Það er mjög þungt í fólki og sífellt er verið að bíða eftir að allt sé komið í lag. En því miður er það ekki þannig og það lítur ekki út fyrir að þetta sé að koma hjá okkur,“ segir Aðalsteinn.

Skriða uppsagna

Alls bárust Vinnumálastofnun sex hópuppsagnir í júlí þar sem samtals 110 manns var sagt upp störfum, uppsagnirnar koma til framkvæmda í september og fram í nóvember. Um var að ræða ýmsar greinar atvinnulífsins, m.a. byggingariðnað, fiskvinnslu og iðnaðarstarfsemi. Allar hópuppsagnirnar voru á höfuðborgarsvæðinu utan ein og eru samdráttur og verkefnaskortur helstu ástæður þeirra.
Yfir 2.000 hópuppsagnir komu til framkvæmda á tveimur fyrstu mánuðum ársins en fór eftir það fækkandi, samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Vinnumálastofnunar.

Á þessu ári hafa Vinnumálastofnun borist 36 hópuppsagnir þar sem nálægt 1.320 manns hefur verið sagt upp úr flestum atvinnugreinum, að stærstum hluta þó úr byggingariðnaði eða 41%.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert