Eftir Halldóru Þórsdóttur og Ómar Friðriksson
„Það er búið að semja um Icesave við Ísland,“ voru fyrstu viðbrögð talsmanns breska fjármálaráðuneytisins þegar Morgunblaðið innti eftir viðbrögðum vegna væntanlegra fyrirvara Alþingis við Icesave-samninginn. Hann segir bresku ríkisstjórnina skilja samskipti sín við íslensku ríkisstjórnina svo að sú síðarnefnda sé reiðubúin að afla stuðnings þingsins við samkomulagið um Icesave sem var undirritað 5. júní síðastliðinn. Það séu góð tíðindi fyrir bæði löndin að þetta mál verði nú leyst.
Lögfræðingar sem Morgunblaðið ræddi við voru á einu máli. Miðað við almennar reglur samningaréttar jafngilda fyrirvarar við samning höfnun á samningi og nýju tilboði. Þótt ef til vill sé hægt að laga orðalag eða fínstilla tiltekna hluti þá þýða of víðtækir fyrirvarar almennt það að semja þarf upp á nýtt. Fyrirvarar eru þannig vægari eða kurteisari leið til að hafna samningi.
Aðstoðarmaður fjármálaráðherra segir marga þá fyrirvara sem hafa verið í umræðunni ekki rúmast innan þess samnings sem liggur fyrir.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins gera þingmenn í Vg sem ekki geta stutt málið óbreytt nú tilraun til þess að ná þverpólitísku samkomulagi um lausn þess með „skýrum og sterkum“ fyrirvörum. Hafa þeir sent skriflegar tillögur til allra flokka með það að markmiði að ná samstöðu á Alþingi um lausn.