Heildarþorskafli strandveiðibáta er nú kominn yfir tvö þúsund tonn, samkvæmt upplýsingum Fiskistofu. Alls hafa 479 bátar landað 2.024 tonnum af þorski. Meðalafli í róðri er 473,6 kíló.
Helmingur aflans hefur verið veiddur á svæði A en það nær frá Eyja- og Miklaholtshreppi til Skagabyggðar. Á svæði A hafa 189 bátar landað samtals 1.316 tonnum af þorski og er meðalafli í róðri 766 kíló.
Á svæði B, sem nær frá Sveitarfélaginu Skagafirði að Grýtubakkahreppi hafa 80 bátar landað samtals 307 tonnum af þorski. Meðalafli í róðri er 449 kíló.
Á svæði C, sem nær frá Þingeyjarsveit til Djúpavogshrepps hafa 87 bátar landað samtals 458 tonnum af þorski. Meðalafli í róðri er 461 kíló.
Á svæði D, sem nær frá Sveitarfélaginu Hornafirði að Borgarbyggð hafa 127 bátar landað samtals 204 tonnum af þorski og er meðalafli í róðri 233 kíló.
Fiskistofa hefur sett upp sérstaka vefsíðu þar sem hægt er að skoða heildarstöðu í veiðunum eftir tegundum, upplýsingar um fjölda báta, fjölda landana og þorskviðmiðun. Þessar upplýsingar er einnig hægt að sækja fyrir hvert veiðisvæði fyrir sig eða hvert veiðitímabil eftir þörfum notanda.