Vill ekki stríð við aðrar þjóðir

Íslensk stjórnvöld eru ekki sátt við að Norðurlöndin vilji stöðva lán AGS til Íslands nema Icesave-málið sé í höfn. Steingrímur J. Sigfússon segir að málstaður Íslendinga sé þó ekki einhlítur og íslenskir ógæfumenn eigi stóran þátt í því hvernig hér er komið. Það þjóni takmörkuðum tilgangi að fara í stríð við aðrar þjóðir.

 Stjórnvöld hafa sætt gagnrýni fyrir að standa illa að því að kynna málstað Íslendinga í Icesave-málinu erlendis. Þá hafi þau ekki komið á framfæri mótmælum við því að Bretar, Hollendingar og Norðurlandaþjóðirnar hafi beitt áhrifum sínum innan Alþjóða Gjaldeyrissjóðsins. Steingrímur segir að aðrar þjóðir standi ekki í biðröð eftir því að lána Íslendingum peninga. Íslensk stjórnvöld séu að reyna að sækja stuðning á pólitískum forsendum í samskiptum við aðrar þjóðir. Hvar eigi Íslendingar til að mynda að leita bandamanna ef samskiptin við Norðurlandaþjóðir fari  upp í loft?

Hann segir að þetta þýði ekki að stjórnvöld séu alls kostar sátt við framkomu Norðurlandanna eða Breta og Hollendinga.. Norðurlöndunum  sé vel kunnugt um afstöðu Íslendinga til þess að Icesave - málið blandist inn í lánið frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum enda reglubundin samskipti vegna lánsins frá Norðurlöndum. Ekki sé ástæða til að ræða það á sérstökum fundi.

Hann segist sammála Evu Joly í mörgu en ekki þó öllu. Til að mynda sé hann ekki sammála því  að Ísland ráði ekki við skuldbindingar sínar og eigi sér ekki bjarta framtíð. Það væri ekki heppilegur efniviður í kynningarátak fyrir Ísland, að halda því fram að hér væri allt komið í kalda kol og þjóðin ætti sér enga framtíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert