Kostnaður Seðlabankans vegna sérfræðiráðgjafar bandaríska fjárfestingarbankans JP Morgan nam rúmlega einum milljarði króna á síðasta ári.
Fram kemur í ársreikningi Seðlabankans fyrir árið 2008 að kostnaður vegna aðkeyptrar sérfræðiráðgjafar hefði hækkað um 1,1 milljarð miðað við árið á undan. Langstærsti hluti þessa kostnaðar er vegna þjónustusamnings við bandaríska fjárfestingarbankann JP Morgan. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er ekki víst að tekist hefði að halda greiðslumiðlun við útlönd jafn greiðri og raun varð á eftir hrun viðskiptabankanna þriggja ef ekki hefði komið til sérfræðiráðgjafar bandaríska bankans og er stór hluti kostnaðarins sprottinn af því.
Forsætisráðuneytið áætlar að það þurfi að greiða 296,2 milljónir fyrir sérfræðiráðgjöf sem tengist hruninu. Stærsti kostnaðarliðurinn eru greiðslur til bresku lögmannsstofunnar Lovells LLP, en hún veitti m.a. ráðgjöf vegna hugsanlegra málaferla ríkisins við bresk stjórnvöld. Alls kostaði þjónusta lögmannsstofunnar 109,3 milljónir.