„Ætli það frjósi ekki fyrr í víti áður en ég skipti um flokk,“ segir Þráinn Bertelsson, þingmaður Borgarahreyfingarinnar. Hann lýsir von til að deilur innan flokksins verði settar niður sem fyrst svo hægt sé að halda starfinu áfram.
Krytur hafa verið innan Borgarahreyfingarinnar frá því þrír af fjórum þingmönnum flokksins greiddu atkvæði gegn tillögu um aðildarumsókn Íslands að ESB. Aðeins Þráinn Bertelsson, þingmaður flokksins sagði já við tillögunni. Jafnframt sakaði Þráinn félaga sína þrjá í þinghópnum um svik á loforðum sem gefin voru fyrir alþingiskosningarnar. Þráinn lýsir þeirri von að sættir takist innan flokksins sem fyrst.
„Ég vona að stjórn Borgarahreyfingarinnar og þessir þremenningar sem eru með mér í þinghópnum, finni lausn á sínum ágreiningsefnum og ég vil bara halda mig til hlés í þeim deilum, þær snúast á engan hátt um mig,“ sagði Þráinn Bertelsson í viðtali við Bylgjuna.
Hann þvertók fyrir að hann væri á leið úr Borgarahreyfingunni.
„Ætli það frjósi ekki fyrr í víti heldur en að ég skipti um flokk. Ég skil ekki hvernig nokkur lifandi maður með óbrenglaða dómgreind og góðan vilja getur dregið þá ályktun að ég sé á leiðinni í einhvern annan stjórnmálaflokk, “ sagði Þráinn Bertelsson og bætti við að hann hefði starfað samkvæmt stefnumiðum Borgarahreyfingarinnar og hefði hugsað sér að gera það áfram.