Funda síðdegis um breytingartillögu

mbl.is/Eggert

Ráðgert er að fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna í fjárlaganefnd hittist kl. 16 í dag til þess að fara yfir breytingartillögur við frumvarpið um Icesave-samninginn.

Að sögn Guðbjarts Hannessonar, formanns fjárlaganefndar, er hér um óformlegan vinnufund að ræða, en ætlunin er að kalla fjárlaganefnd saman í heild sinni í fyrramálið. Sagðist hann ekki gera ráð fyrir að frumvarpið yrði afgreitt úr nefndinni á morgun. 

„Það er komið uppkast að breytingartillögu við frumvarpið sem menn fá til skoðunar í dag, en það er bara fyrsta uppkast þannig að menn eiga örugglega eftir að kasta því á milli sín,“ sagði Guðbjartur í samtali við mbl.is.

Inntur eftir því hvort menn séu að ná saman í fjárlaganefndinni segir Guðbjartur enn ekki fyllilega hafa reynt á það ennþá. „Menn hafa verið að skoða efnahagsþáttinn í þessu og sú vinna klárast líklega í dag eða á morgun. Og þá á eftir að púsla þessu saman þannig að það sér ekki alveg fyrir endann á því.“

Spurður hvort hann teldi breytingartillögurnar þess eðlis að Icesave-samningnum væri sjálfkrafa hafnað svarar Guðbjartur því neitandi. „Okkar breytingartillögur ganga út á það að samningurinn verði samþykktur, en það verði tryggð þau atriði sem menn hafa verið óánægðastir með.  Það verði reynt að tryggja þau þannig að þau lifi til frekari skoðunar.“

Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar.
Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert