Steypa afhent í stækkun virkjunar á Hellisheiði

„Þetta er stórt verkefni og mjög mikilvægt fyrir okkur. Sérstaklega vegur það þungt núna, á tímum samdráttar í byggingariðnaði,“ segir Hannes Sigurgeirsson forstjóri Steypustöðvarinnar, en fyrirtækið afhenti á föstudag fyrstu steypuna í 5. áfanga Hellisheiðarvirkjunar.

Aðalverktaki við byggingu virkjunarinnar er JÁ-verktakar ehf. sem hafa gert samning við Steypustöðina um afhendingu á 6550 rúmmetrum af steypu vegna þessarar framkvæmdar.

Á við 150 íbúðir

Til samanburðar má geta þess að 45 til 50 rúmmetrar af steypu fara að jafnaði í íbúð í fjölbýlishúsi. Þessi samningur lætur því nærri að vera um það magn sem færi í 150 blokkaríbúðir.

Framkvæmdir við virkjunina á Hellisheiði hófust í júlí og áætluð verklok eru í nóvember 2011.

„Þegar lítið er um húsbyggingar skipta verkefni sem þessi miklu máli fyrir okkar starfsemi. Vonandi fjölgar framkvæmdum af þessari stærðargráðu á næstunni,“ segir Hannes en fyrirtækið varð nýlega að grípa til uppsagna 17 starfsmanna. Stöðugildi eru nú ríflega 40 hjá fyrirtækinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert