Ný Þingvallanefnd verður kjörin á Alþingi á morgun. Sex af sjö núverandi nefndarmönnum eru hættir þingmennsku. Þá er fyrirhugað að kjósa sjö fulltrúa í nýtt bankaráð Seðlabankans á þingfundi á morgun.
Alþingi kemur saman til fundar á ný síðdegis á morgun eftir rúmlega hálfsmánaðar hlé. Að loknum óundirbúnum fyrrispurnum tekur við hrina kosninga í nefndir og ráð.
Fyrst verða kosnir sjö menn og jafnmargir varamenn í bankaráð Seðlabanka Íslands til fyrsta þings eftir næstu almennar alþingiskosningar.
Þingvallanefnd skipuð
Þá verður loks skipuð ný Þingvallanefnd. Kjörnir verða sjö alþingismenn og jafnmargir til vara í nefndina. Þingvallanefnd fer með yfirstjórn þjóðgarðsins, fyrir hönd Alþingis. Nefndina skipa í dag alþingismennirnir, Björn Bjarnason formaður, Össur Skarphéðinsson varaformaður, Arnbjörg Sveinsdóttir, Kjartan Ólafsson, Lúðvík Bergvinsson, Bjarni Harðarson og Kolbrún Halldórsdóttir. Aðeins Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra situr enn á þingi. Nefndarinnar bíður meðal annars að fjalla um uppbyggingu á Þingvöllum í kjölfar bruna Hótels Valhallar 10. júlí sl.
Skipað í kjörstjórnir
Á þingfundi á morgun verður ennfremur skipað í landskjörstjórn og yfirkjörstjórnir kjördæmanna sex. Fimm menn og jafnmargir varamenn verða kjörnir í hverja kjörstjórn fyrir sig.
Loks verða kjörnir fimm menn og jafnmargir til vara í nefnd um erlenda fjárfestingu.
Icesave ekki á dagskrá
Þrjú þingmál eru á dagskrá þessa fyrsta þingfundar eftir hlé. Stefnt er að lögfestingu breytinga á lögum um eiturefni og hættuleg efni og breytingu laga um meðhöndlun úrgangs. Þá kemur frumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra um breytingu á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands til annarrar umræðu. Ríkisábyrgð vegna Icesave samninga við Breta og Hollendinga er ekki á dagskrá þingfundar á morgun.