Algjör óvissa er enn um afdrif frumvarps ríkisstjórnarinnar um ríkisábyrð vegna Icesave-samninganna, sem fjárlaganefnd hefur nú haft til umfjöllunar um nokkurt skeið. Vinnufundur í nefndinni í gær varð ekki til að breyta afstöðu þeirra sem mestar efasemdir hafa.
Þingmenn sem rætt var við í gær voru flestir á því að ekki væri meirihluti fyrir því á Alþingi að samþykkja ríkisábyrgðina nema með ströngum fyrirvörum. Töluvert skorti hins vegar upp á að þeir fyrirvarar, sem stjórnarflokkarnir hafi lagt til, gangi nógu langt. Því séu litlar líkur á því að samstaða náist um þetta mál miðað við núverandi stöðu.
Þá virðist ýmislegt benda til þess að andstaða meðal þingmanna Vinstri grænna við Icesave-samningana og frumvarp ríkisstjórnarinnar um ríkisábyrgð hafi frekar aukist en hitt.
Fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi, sem sátu vinnufund fjárlaganefndar í gær, sögðu að afstaða þeirra til þessa máls hefði ekki breyst eftir fundinn. Þór Saari, þingmaður Borgarahreyfingarinnar, sagði þó að nokkuð hefði skýrst hvaða hugmyndir væru uppi varðandi fyrirvara við frumvarpið. Ljóst væri þó að hugmyndir ríkisstjórnarflokkanna gengju ekki nógu langt.Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist ekki sjá lausn í sjónmáli sem tryggði málinu meirihluta á Alþingi. Þá sagði Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, að hann teldi að málið í heild væri á villigötum. Hreinlegast væri að tilkynna Bretum og Hollendingum að það væri ekki meirihluti fyrir ríkisábyrgðinni á Alþingi.