Algjör óvissa er enn um afdrif frumvarps ríkisstjórnarinnar um ríkisábyrð vegna Icesave-samninganna, sem fjárlaganefnd hefur nú haft til umfjöllunar um nokkurt skeið. Vinnufundur í nefndinni í gær varð ekki til að breyta afstöðu þeirra sem mestar efasemdir hafa.
Þingmenn sem rætt var við í gær voru flestir á því að ekki væri meirihluti fyrir því á Alþingi að samþykkja ríkisábyrgðina nema með ströngum fyrirvörum. Töluvert skorti hins vegar upp á að þeir fyrirvarar, sem stjórnarflokkarnir hafi lagt til, gangi nógu langt. Því séu litlar líkur á því að samstaða náist um þetta mál miðað við núverandi stöðu.
Þá virðist ýmislegt benda til þess að andstaða meðal þingmanna Vinstri grænna við Icesave-samningana og frumvarp ríkisstjórnarinnar um ríkisábyrgð hafi frekar aukist en hitt.
Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist ekki sjá lausn í sjónmáli sem tryggði málinu meirihluta á Alþingi. Þá sagði Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, að hann teldi að málið í heild væri á villigötum. Hreinlegast væri að tilkynna Bretum og Hollendingum að það væri ekki meirihluti fyrir ríkisábyrgðinni á Alþingi.