Forgangskröfur vegna innistæða, hvort heldur sem þær hafa verið yfirteknar af Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta eða verið framseldar kröfuhafa, teljist jafnréttháar að því er varðar úthlutun úr búi fjármálafyrirtækja. Tryggingarsjóðurinn njóti því samkvæmt íslenskum gjaldþrotarétti ekki sérstaks forgangs þegar kemur að úthlutun forgangskrafna. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýju lögfræðiáliti sem forsætisráðuneytið hefur látið vinna.
Í nýju áliti sem lögmennirnir Andri Árnason og Helga Melkorka Óttarsdóttir hafa unnið fyrir forsætisráðuneytið er fjallað um gildandi reglur hér á landi og í ljósi EES-réttar um úthlutun úr búi fjármálafyrirtækja og hvernig þær muni horfa við gagnvart þeim sem eiga forgangskröfur í bú Landsbanka Íslands hf.
Álitsins var aflað vegna vafa sem risið hefur um hvort með Icesave-samningunum hafi hlutur Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta þegar kemur að skiptum verið rýrður umfram það sem íslenskar réttarreglur gera ráð fyrir til hagsbóta fyrir breska og hollenska aðila, að því er fram kemur á vef forsætisráðuneytisins.
„Með álitinu er því enn staðfest að ákvæði Icesave samninganna um jafnræði milli tryggingarsjóða Íslands, Bretlands og Hollands rýra ekki að neinu leyti rétt íslenska tryggingarsjóðsins þegar kemur að úthlutun úr búi Landsbankans.
Þá kemur fram í álitinu að ef tryggingarsjóðnum hefði á hinn bóginn með lögum verið veittur sérstakur forgangur umfram aðra kröfuhafa sem ættu sambærilega kröfu, þ.e. kröfu vegna innstæðna, andstætt reglum kröfuréttar og gjaldþrotaréttar hvað kröfuröð og rétthæð krafna varðar, þá væri hætt við að slíkt fæli í sér brot á EES-samningnum," segir á vef ráðuneytisins.
Kemur meðal annars fram í álitinu að það sé skiptastjóri sem sér um að úthluta fjármunum búsins en ef upp kemur ágreiningur þá skuli útkljá hann fyrir íslenskum dómsstólum, samkvæmt íslenskum lögum.