Fréttaskýring: Samningur um gagnaver tilbúinn

Nokkrir aðilar hafa sem kunnugt er verið að undirbúa gagnaver eða netþjónabú, þar sem hýst eru plássfrek tölvugögn eða hugbúnaður. Hrun íslensku bankanna hefur tafið þessi verkefni en gagnaverin eru líka orkufrek og kalla á frekari virkjunarframkvæmdir ef öll áform eiga að ganga eftir. Hafa stærstu orkufyrirtækin lýst sig reiðubúin til að útvega þá orku sem til þarf, en orkuþörf hvers gagnavers getur verið allt að 50MW.

Félagið Verne Holdings er líkast til lengst á veg komið en það er í aðaleigu Novators (Björgólfs Thors Björgólfssonar) og bandaríska fjárfestingasjóðsins General Catalyst Partners. Áform eru um gagnaver í tveimur stórum vöruhúsum á gamla herstöðvarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Unnið hefur verið að gerð fjárfestingarsamnings Verne Holdings við stjórnvöld og samkvæmt heimildum blaðsins er sá samningur nánast tilbúinn, aðeins eftir að hnýta nokkra hnúta, eins og það er orðað.

Hefur vinna við samninginn aðeins dregist á langinn í sumar. Gerð svona samnings, þar sem stjórnvöld heita ýmiskonar stuðningi og ívilnunum, er afar mikilvægur fyrir bæði Verne Holdings og viðskiptavini félagsins. Hefur hann verið skilyrði af hálfu viðskiptavinanna, þannig að rekstrarumhverfið á Íslandi liggi fyrir áður en endanlegar ákvarðanir eru teknar um þátttöku í gagnaverinu. Samningurinn þarf ennfremur að fara fyrir Alþingi, sem og að vera borinn undir ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, eins og annar ríkisstuðningur.

Samkvæmt upplýsingum blaðsins verður fjárfestingarsamningurinn við Verne Holdings að öllum líkindum frágenginn áður en vinnu lýkur við heildarlöggjöf um aðkomu stjórnvalda að nýjum erlendum fjárfestingum, þannig að ekki sé verið að semja við hvert fyrirtæki fyrir sig. Iðnaðarráðuneytið hefur sett þá vinnu af stað og á starfshópur að skila af sér tillögum fyrir árslok.

Greenstone, sem er í eigu bandarískra, hollenskra og íslenskra aðila, er sömuleiðis vel á veg komið í sínum undirbúningi að gagnaverum. Endanlegt staðarval hefur ekki verið gefið upp en forsvarsmenn Greenstone segja ekkert því til fyrirstöðu að hefja framkvæmdir síðar á þessu ári ef næg orka fæst og samningar takast um fjárfestinguna. Fram hefur komið í Morgunblaðinu að forsvarsmenn Greenstone segjast vera komnir með stór bandarísk fyrirtæki í viðskipti sem vilja hafa gagnaver hér á landi.

Danice-strengurinn tilbúinn

Slík starfsemi er ekki síst háð flutningsgetu um sæstrengi til og frá landinu. Búið er að auka flutningsgetuna með nýja strengnum, Danice. Strengurinn sjálfur er tilbúinn til notkunar en að sögn Guðmundar Gunnarssonar, framkvæmdastjóra Farice, er verið að ljúka vinnu á afhendingarstöðum í Reykjavík og Kaupmannahöfn. Innan 2-3 vikna verður hægt að tengja umferð um strenginn. Símafélögin verða fyrst til að tengjast en reiknað er með að gagnaver geti nýtt sér Danice strax á næsta ári. Guðmundur segist finna fyrir auknum áhuga erlendra aðila á að setja upp gagnaver hér.

hvað með risana?

Fleiri félög en Verne og Greenstone vinna að því að gagnaver rísi hér á landi. Meðal þeirra er Titan Global, sem er í aðaleigu Jónasar Tryggvasonar, fv. framkvæmdastjóra hjá Actavis, og Arnþórs Halldórssonar, fv. framkvæmdastjóra Hive. Um nokkurs konar fasteignaþróunarfélag er að ræða þar sem Titan ætlar ekki að reka gagnaverin, heldur laða hingað til lands stórfyrirtæki sem vilja hafa slíka starfsemi hér. Jónas segir vinnuna enn vera í gangi og miða vel áfram. Fjölmörg þekkt alþjóðleg fyrirtæki hafi sýnt Íslandi áhuga. Hann vill ekki nefna nein nöfn í því sambandi en Titan Global hefur m.a. leitað til risa á borð við Microsoft, Google, Yahoo og fleiri á topp-tíu-listanum yfir stærstu upplýsingatæknifyrirtæki heims. Jónas segir þessi fyrirtæki reisa nokkur gagnaver á ári hverju og Ísland eiga góða möguleika á að komast þar á dagskrá. Hann gefur ekki upp á þessu stigi hverjir hafa sýnt mestan áhuga.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert