Skipulagsstofnun hefur tekið afstöðu til mismunandi leiða nýs vegar yfir Hornafjarðarfljót en vegurinn verður hluti hringvegarins og styttir hann um 11-12 km. Um þrjár meginleiðir er að velja og telur Skipulagsstofnun að þær myndu allar hafa varanleg og neikvæð umhverfisáhrif, ein þeirra þó minnst.
Skipulagsstofnun segir að svonefnd leið 1 muni hafa talsvert neikvæð áhrif á fugla og áhrifin á landslag, ásýnd og jarðmyndanir verði varanleg og óafturkræf. Stofnunin telur hins vegar að aðrar leiðir, sem taldar eru koma til greina, muni hafa verulega neikvæð og óafturkræf áhrif á landslag, ásýnd, jarðmyndanir og gróður
Stofnunin leggur til að veitt verði framkvæmdaleyfi fyrir veginum samkvæmt leið 1 með því skilyrði, að Vegagerðin myndi formlegan samráðshóp fagaðila, m.a. með aðild Landgræðslu ríkisins og Umhverfisstofnunar, um endurheimt votlendis vegna framkvæmdarinnar. Samráðshópurinn hafi það hlutverk að fylgjast með endurheimt votlendis á framkvæmdasvæðinu og vinni að því markmiði að votlendi endurheimtist til jafns við það sem framkvæmdin hafi raskað.