„Það er verið að reyna að leysa þetta mál með hefðbundnum pólitískum ofbeldisaðferðum. Það er ekki gott en þetta er taktík sem við höfum áður séð,“ segir Þór Saari, þingmaður Borgarahreyfingarinnar um vinnu við Iceasave-málið í fjárlaganefnd Alþingis. Þór segir enn komnar fram lítt dulbúnar hótanir í garð stjórnarþingmanna sem andæfa óbreyttu frumvarpi um ríkisábyrgð vegna Icesave.
Fjárlaganefnd þingaði í morgun um breytingar á frumvarpi um ríkisábyrgð vegna Icesave en vinnuhópur fulltrúa allra flokka vann um helgina að gerð breytingartillagna og fyrirvara. Reiknað er með að hún komi aftur saman síðdegis eða í kvöld. Farið var yfir fyrirvara sem fulltrúar stjórnarflokkanna hafa lagt fram en að mati stjórnarandstæðinga ganga þeir ekki nógu langt.
Áfram verður reynt að ná samkomulagi um fyrirvara við ríkisábyrgðina og eru tveir hópar að skoða annars vegar með hvaða hætti setja megi efnahagslega fyrirvara og hins vegar möguleika á lagalegum fyrirvörum þingsins. Enn er ekki útséð með að samkomulag náist skv. heimildum mbl.is en óvíst er hvenær frumvarpið verður afgreitt úr nefndinni.
„Þetta gengur hægt en þokast þó áfram. Það varð um það samkomulag í gær um að unnið yrði áfram með efnahagslega fyrirvara. Í morgun fannst mér hins vegar komið harðara hljóð í það sem ég kalla stjórnarminnihlutann, fulltrúa Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd. Það eru kominn alls kyns pólitísk útspil. Í morgun hófst mikil áróðursherferð gegn Ögmundi Jónassyni og VG-liðum sem hafa sett fyrirvara við ríkisábyrgð á Icesave að óbreyttu. Það er spurning hvort að þetta er aðferð samfylkingarfólks til að leysa málið,“ segir Þór Saari.
Hann vill ekki meina að menn séu að fara á taugum en þrýstingurinn sé mikill á að klára verkefnið.
„Mönnum fallast hendur stundum, enda verkefnið umfangsmikið. Það er eins og menn þori ekki að klára það með viðunandi hætti,“ segir Þór Saari.
Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar sagði í samtali við mbl.is í gær að það kæmi í ljós á næstu tveimur sólarhringum hvort nefndin valdi því hlutverki sínu að afgreiða Icesave samninginn. Nefndin hefur haft tvo mánuði til að afgreiða samninginn. Deilt er um orðalag fyrirvara sem settir yrðu en sumir þingmenn halda því fram að fyrirvarar jafngildi því að fella samningana.
„Fyrirvararnir eru ekkert óyfirstíganlegir, þeir eru mjög sanngjarnir og eðlilegir. Þetta eru fyrst og fremst fyrirvarar sem vernda Ísland og íslenska þjóðarbúið og skýra hagsmuni Íslendinga. Þetta eru ekki fyrirvarar sem ættu að gera Breta og Hollendinga mjög reiða. Það er hægt að klára málið á mjög skömmum tíma ef það er vilji til þess af hálfu Samfylkingarinnar,“ segir Þór Saari, fulltrúi Borgarahreyfingarinnar í fjárlaganefnd.