„Við getum sagt að það miði hægt í rétta átt. Það er ekki séð fyrir endann á þessu en við reynum að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Ég tel líklegt að við náum að afgreiða málið úr nefndinni í þessari viku og þá er ég að miða við að allir séu sammála um afgreiðslu málsins út úr nefndinni,“ segir Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar.
Hann segir að drög að breytingartillögum sem unnið var að um helgina hafi breyst mjög á síðustu klukkustundum og séu enn að breytast. Það séu fet í rétta átt.
Til stóð að fjárlaganefnd þingaði síðdegis eða í kvöld um ríkisábyrgð á Icesave-samningana en af því getur ekki orðið. Tveir fundir eru boðaðir í fjárlaganefnd um Icesave í fyrramálið, sá fyrri klukkan hálfníu og sá síðari klukkan ellefu.
Á síðari fundinn kemur kemur Lee Buchheit, fulltrúi lögfræðistofu í Bandaríkjunum en hann hefur sérhæft sig í skuldamálum og fjárhagslegri endurskipulagningu.