Kosið var í bankaráð Seðlabankans á þingfundi á Alþingi í dag, í Þingvallanefnd og einnig í landskjörstjórn og yfirkjörstjórnir kjördæmanna sex. Þingmenn Borgarahreyfingarinnar mótmæltu kosningunum í seðlabankaráð og kjörstjórnir og sögðu að breyta yrði reglum um þær.
Af hálfu stjórnarflokkanna voru Lára V. Júlíusdóttir, Ragnar Arnalds, Ágúst Einarsson og Hildur Traustadóttir kjörin í ráðið og þau Ragnar Árnason, Magnús Árni Skúlason og Katrín Olga Jóhannesdóttir af hálfu stjórnarandstöðunnar. Varamenn voru kjörin Margrét Kristmannsdóttir, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Björn Herbert Guðbjörnsson, Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, Birgir Þór Runólfsson, Ingibjörg Ingadóttir og Friðrik Már Baldursson.
Þór Saari, þingmaður Borgarahreyfingarinnar, gerði athugasemd við kosninguna í Seðlabankaráðið og sagði að Borgarahreyfingin mótmælti því að kosið væri í bankaráðið á pólitískum grunni en ekki væri skipað í það á faglegum forsendum. Óskaði hann eftir því að kosningunni yrði frestað og staðið að henni með öðrum hætti í framtíðinni.
Fulltrúar Alþingis í Þingvallanefnd voru kjörin Björgvin G. Sigurðsson, Álfheiður Ingadóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Atli Gíslason, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Höskuldur Þórhallsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Í landskjörstjórn voru kjörin Bryndís Hlöðversdóttir, Ástráður Haraldsson, Þórður Bogason, Hervör Lilja Þorvaldsdóttir og Þuríður Jónsdóttir.
Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Borgarahreyfingarinnar, sagði flokkinn mótmæla því að kosið væri í landskjörstjórn með þessum hætti og sagði að allir þingflokkar ættu að eiga fulltrúa í nefndinni.