Fæðingum hefur fjölgað talsvert á Landspítalanum, það er á fæðingardeildinni og Hreiðrinu, það sem af er ári miðað við árið í fyrra. Í ár eru fæðingar orðnar 2.101 á LSH, en til 10. ágúst í fyrra voru fæðingar 2.029 og er aukningin um 3,5%. Margar fæðingar eru bókaðar á næstu mánuðum þannig að útlit er fyrir að þær verði fleiri á LSH en nokkru sinni.
Guðrún G. Eggertsdóttir, yfirljósmóðir fæðingardeildar LSH, sagðist ekki hafa skýringu á þessari fjölgun fæðinga. Margt gæti spilað þar inn í, en hún sagðist ekki neita því að starfsfólk á fæðingardeildinni hefði velt því fyrir sér hvort kreppan sem skall á síðasta haust ætti hlut að máli.
Aðspurð hvort skýra mætti fjölgunina með minni þjónustu á öðrum sjúkrahúsum sagði Guðrún að það ætti aðeins lítinn hlut að máli því ljósmæður, bæði á Selfossi og í Keflavík, hefðu getað sinnt flestum eðlilegum fæðingum.