„Það virðist ríkja misskilningur um að erlendu lánin séu að kyrkja sveitarfélögin,“ segir Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hann segir að ákjósanlegast væri að endurfjármagna þau með erlendum lánum en það standi ekki til boða í bili. Hins vegar sé hægt sé að nálgast íslenskt lánsfé m.a. hjá lánasjóði sveitarfélaga.
Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri lánasjóðs sveitarfélaga, segir eftirspurn eftir lánsfé minni en búist hafi verið við. „Sveitarfélögin brugðust hratt við, hagræddu og drógu úr framkvæmdum. Þá virðast spár um tekjulækkun hafa verið fullsvartsýnislegar. Ástandið er því ef til vill betra en margur heldur. Svo er kannski rétt að hafa í huga að maður vinnur sig ekki út úr lausafjárkrísu með meira láni.“