Allsherjarveð í eigum Íslendinga

Vigdís Hauksdóttir.
Vigdís Hauksdóttir.

Vigdísi Hauksdóttur, þingmanni Framsóknarflokks, var heitt í hamsi þegar hún gagnrýndi Icesave-samningana á Alþingi í dag. Sagði hún að auðveldlega væri hægt að færa fyrir því rök að um landráðasamninga væri að ræða og ljóst væri að ríkisstjórnin ynni að hagsmunum lánardrottna og erlendra fjármagnseigenda.

Vigdís sagði, að aðstoðarmaður fjármálaráðherra hefði í gær staðfest að friðhelgisréttindum landsins væri rutt í burtu í samningunum. „Áttar fólk sig á því hvað þetta er alvarlegt mál... Það þýðir á mannamáli, að standi íslenska ríkið ekki við samninginn þá yfirtaka Bretar og Hollendingar allar eigur íslenska ríkisins," sagði Vigdís. „Þeir hafa tekið allsherjarveð í eigum Íslendinga."

Spurði hún Árna Þór Sigurðsson, þingmann VG og formann utanríkismálanefndar Alþingis, hvort hann teldi að ráðherra, sem teldi svona samning góðan og glæsilegan, væri yfirleitt treystandi til að gegna ráðherraembætti fyrir íslensku þjóðina.

Árni Þór sagði, að varla væri hægt að sitja undir slíkri orðræðu og sagðist hann undrast, að forseti Alþingis léti hana óátalda.

Hann sagði, að það álitamál, sem Vigdís hefði gert að umtalsefni, væri til meðferðar á vettvangi fjárlaganefndar og því vildi hann ekki tjá sig frekar um það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert