Mikil brennisteinslykt er af Fremri-Emstruá en ekki tiltakanlega miklir vatnavextir, samkvæmt upplýsingum sem fengust frá skálaverði Ferðafélags Íslands í Emstrum. Að sögn jarðfræðings hjá Veðurstofu Íslands er fylgst með aðstæðum, en hann segir að engin sérstök hætta sé á ferðum.
Brynjólfur Sigurbjörnsson, landvörður í Húsadal í Þórsmörk, sagði ekki óvanalegt að finna brennisteinslykt á þessum slóðum, eins og verið hefur undanfarna daga. Hann sagði ekki sérstaklega mikið í Markarfljóti nú, það hafi verið miklu vatnsmeira í vatnavöxtunum um síðustu helgi.
Brynjólfur sagði að núverandi göngubrú yfir Fremri-Emstruá hafi verið byggð á öðrum stað en eldri brú sem tók af í jökulhlaupi árið 1988. Hann taldi að göngubrúin sé ekki í neinni hættu, eftir því sem honum skildist.
Brynjólfur hafði ekki heyrt göngufólk sem var að koma af Laugaveginum hafa orð á því að eitthvað óvenjulegt hafi verið við Fremri-Emstruá.
Engin sérstök hætta á ferðum
„Þarna er að öllum líkindum um að ræða lítið hlaup Fremri-Emstruá. Það var um langt árabil árvisst fyrirbrigði, að því er Guðjón Ólafsson, bóndi í Syðstu-Mörkum undir Eyjafjöllum, hefur sagt mér,“ segir Oddur Sigurðsson, jarðfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.
Hann segir að hlé hafi orðið á þeim udanfarin ár. „En kemur endrum og sinnum samt, og þá fylgir því alltaf mikil jöklafýla,“ segir Oddur.
Aðspurður segir Oddur að menn hafi engar sérstakar áhyggjur af þessu. „Þetta er eitthvað sem menn þekkja mætavel og hefur aldrei orðið til tjóns Hvorki vatnsmagnið né fýlan. Að vísu tók af göngubrú Ferðafélagsins 1988, í einu svona hlaupi. En síðan var hún endurbyggð svolítið hærra og á betri stað kannski, og þá hefur hún lifað, þessi 20 ár síðan.“