Enginn hafnaði láni Rússa

Seðlabankinn
Seðlabankinn mbl.is/Ómar

Engum sem mbl.is hefur rætt við úr íslenska stjórnkerfinu er kunnugt um að Íslendingar hafi afþakkað fjögurra milljarða evra lán frá Rússum í október, eins og sendiherra Rússa á Íslandi fullyrti í dag. Þeirra á meðal er Jón Sigurðsson, formaður samninganefndar íslenska ríkisins um gjaldeyrislán.

Í viðtali við Netvarpið í dag vísar sendiherrann, Victor I. Tatarintsev, til þáverandi ríkisstjórnar, en Jón bendir á að viðræður um gjaldeyrislán hafi ekki verið í hans höndum á þeim tíma. Nefndarmönnum í samninganefndinni sem nú situr var þó engin höfnun kunngjörð.

Þann 7. október síðastliðinn birti Seðlabanki Íslands fréttatilkynningu þess efnis að 4 milljarða evra lánið væri í höfn, og var það haft eftir sendiherranum. Síðar þann sama dag var áréttað að lánveiting væri enn á viðræðustigi. Það var ennfremur haft eftir Davíð Oddssyni, þáverandi Seðlabankastjóra, á fréttavef Bloomberg. Þar sagði hann ennfremur að hvers kyns aðstoð frá Rússum yrði vel þegin.

Í rússneskum fjölmiðlum kemur fram þann sama dag, 7. október, að Rússum hafi borist beiðni um lánveitingu frá íslenskum stjórnvöldum.

Íslensk sendinefnd fundaði með Dimitry Pankin, aðstoðarfjármálaráðherra Rússa, í Moskvu viku síðar. Í kjölfarið birtist tilkynning á vef Seðlabankans, þann 15. október, en þar var hvergi minnst á neinar upphæðir eða framvindu lánasamninga. Í tilkynningunni segir m.a.:

Dimitry Pankin sagði eftir fundina: „Fundirnir voru mjög vinsamlegir og við höfum fræðst mikið um stöðu Íslands, bankakerfi landsins og íslenska hagkerfið. Við munum fara ofan í saumana á málunum áður en við tökum lokaákvörðun.“

Í viðtali við  rússnesku fréttastofuna Prime Tass þann 28. október segir Pankin að lánveiting til Íslands hafi í upphafi ekki verið hugsuð sem aðstoð vegna fjárhagsaðstæðna hér á landi. Frekar hafi verið talið að lánið væri góður fjárfestingarkostur. Á þessum tíma, þegar viðtalið er tekið, hafi aðstæður á Íslandi breyst gríðarlega.

Eins og fram hefur komið eru nú á byrjunarstigi viðræður um 500 milljóna dala lán frá Rússum, sem er um það bil einn tíundi af þeirra upphæð sem sendiherrann nefnir. Fyrirheit um það lán barst í nóvember sl., að sögn Jóns Sigurðssonar,  og er það hugsað sem stuðningur við lán Íslands frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Viðtalið við sendiherrann má sjá hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert