Gagnrýna fáheyrð vinnubrögð

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Ómar

Minnihluti umhverfisnefndar Alþingis mótmælir harðlega þeim fáheyrðu vinnubrögðum sem meirihluti nefndarinnar viðhefur í sambandi við afgreiðslu náttúruverndaráætlunar. Þetta kemur fram í áliti minnihlutans. Þar segir að meirihlutinn hafi tekið málið út úr nefndinni án þess að eðlileg umfjöllun hafi átt sér þar stað. 

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, talar um valdníðslu og segir að stjórnarandstæðingar hafi mótmælt þessu harðlega á nefndarfundinum í morgun og eins við upphaf þingfundar.

Hann segir að um furðuleg vinnubrögð sé að ræða. 

Fram kemur í áliti minnihlutans að málið hafi aðeins verið tekið til efnislegrar umfjöllunar á tveimur fundum nefndarinnar og þá aðeins með þeim hætti að fulltrúar umhverfisráðuneytis og stofnana þess kynntu efni hennar. Ekki hafi verið gerð tilraun til að fá til fundar við nefndina þá fjölmörgu umsagnaraðila sem hafi gert athugasemdir við einstök atriði hennar á liðnu vori. Ekki hafi einu sinni verið farið yfir þær athugasemdir sem þá hafi komið fram og þær ræddar.

„Minni hlutinn gagnrýnir hins vegar þessa ómálefnalegu afgreiðslu af hálfu meiri hluta nefndarinnar og telur hana ganga þvert gegn öllum sjónarmiðum um vönduð, fagleg og lýðræðisleg vinnubrögð. Með þessum hætti er bæði málefninu sjálfu og þinginu sem slíku sýnd fádæma vanvirðing,“ segir í álitinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert