Ríkisstjórnin hefur lagt fram frumvarp á Alþingi þar sem lagt er til að heimild verði að kyrrsetja eignir aðila sem eru til rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins.
Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu, að því sé ætlað að koma í veg fyrir að skattaðilar geti komið sér undan greiðslum opinberra gjalda með því að flytja eða færa eignir úr sinni vörslu í hendur annarra.
Verður skattaðila, eftir að skattrannsóknarstjóri tilkynnir um rannsókn, óheimilt að ráðstafa eignum sínum með sölu þeirra, veðsetningu eða öðrum löggerningum, hafi tollstjóri krafist tryggingar, nema fyrir liggi tryggingar sem innheimtumaður ríkissjóðs telur fullnægjandi, til tryggingar skaðlausum efndum væntanlegrar skattkröfu. Þetta á einnig við ef skattaðila hefur verið tilkynnt um eftirlitsaðgerðir ríkisskattstjóra eða skattstjóra.
Fram kemur í umsögn fjármálaráðuneytisins, að óvissa sé um í hvaða mæli grípa þarf til þessara úrræða á næstunni. Skattyfirvöld kunni að þurfa að taka til rannsóknar ýmis mál þar sem á þau kynni að reyna í kjölfar efnahagshrunsins sl. haust. Ef um nokkurn fjölda mála af þessum toga yrði að ræða gæti þurft að fjölga starfsmönnum við innheimtuaðgerðir tollstjóra tímabundið um einn til tvo. Um sé að ræða tiltölulega lítinn kostnaðarauka fyrir málaflokkinn sem gert sé ráð fyrir að rúmist innan útgjaldaramma ráðuneytisins.