Kerfisbreyting á 15 mínútum

Pétur H. Blöndal.
Pétur H. Blöndal.

Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði á Alþingi í dag, að efnahags- og skattanefnd stundaði tilraunalagasetningu og vísaði þar til breytinga á skattalögum, sem gerð var fyrr í sumar. Sagði Pétur að nefndin hefði þar ákveðið að gera kerfisbreytingu á 15 mínútum með þeim afleiðingum, að nú þurfi að leiðrétta lögin.  

Pétur sagði, að með lagabreytingunni í júní hefði verið ákveðið að hækka vörugjöld á hundruðum vörutegunda, aðallega sykruðum vörum. „Á fundi stuttu áður hafði meirihluti efnahags- og skattanefndar ákveðið að hverfa frá upphaflegum hugmyndum að hækka virðisaukaskatt á sykruðum vörum og hækka frekar vörugjöld. Þetta var gert á 15 mínútum, engar umsagnir, engir gestir, ekki neitt," sagði Pétur.

Hann sagði, að nú hefði nefndin lagt fram frumvarp um breytingu á lögunum enda hefði komið í ljós að ýmis mistök hefðu verið gerð í óðagotinu, svo sem að fella niður skatta á hjólbörðum og leggja gjöld á vörur, sem ekki eru til. „Svona óðagot og hraði má ekki eiga sér stað," sagði Pétur.

Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og skattanefndar, sagði að nefndin hefði verið í þeim erfiða leiðangri að auka skattheimtu, m.a. að taka upp eldri skattheimtu á ný. Rétt væri að gerð hefðu verið mistök í dagsetningu og við leiðréttingu á henni hefði verið ákveðið að fara yfir vöruflokkana en vörugjöld væri flókinn málaflokkur, sem stöðugt þyrfti að endurskoða.

„En þegar þingmaðurinn talar um tilraunalagasetningu þá hittir hann sjálfan sig fyrir því verið var að taka upp vörugjöld sem voru í gildi þegar Pétur H. Blöndal var formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis," sagði Helgi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert