Landvernd vill friða Gjástykki

Frá borunum í Gjástykki.
Frá borunum í Gjástykki.

Stjórn Landverndar tekur undir áhyggjur Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi, SUNN, vegna fyrirhugaðra rannsóknarborana í Gjástykki í Þingeyjarsýslu, sem nú eru í matsferli vegna umhverfisáhrifa. Stjórn Landverndar segir friðlýsingu Gjástykkis vera forsendu þess að þessu merkilega svæði verði ekki raskað. Stjórn Landverndar hvetur umhverfisráðherra að taka jákvætt í áskorun SUNN um að hafist verði handa sem fyrst við að undirbúa friðlýsingu.

Í yfirlýsingu Landverndar segir að samtökin hafi áður beitt sér gegn því að ráðist sé í orkuvinnslu í Gjástykki, enda hefði slíkt í för með sér mikið rask á svæði sem líkur benda til að búi yfir lítilli orku. Landvernd bendir í þessu sambandi á álit Náttúrufræðistofnunar Íslands á verndargildi jarðmyndana í Gjástykki.

Landvernd segir Gjástykki, ásamt svæðinu í kringum Leirhnjúk vestan Kröflu, sennilega það svæði í heiminum á þurru landi sem best sýni hvernig landreksflekarnir færast í sundur. Á þessum slóðum séu því aðstæður til fræðslu og náttúruupplifunar sem hvergi gefist annars staðar og í því felist mikil tækifæri.

Miklir möguleikar séu á þessum slóðum fyrir útivist og ferðaþjónustu, t.d. í gönguferðum milli Jökulsárgljúfra í Vatnajökulsþjóðgarði og Mývatns. Allt rask, þar með taldar rannsóknarboranir, ógni þessu gildi og rýri ímynd og gæði. Betri kostur væri að huga að annars konar nýtingu svæðisins, t.d. uppbyggingu eldfjallafræðagarðs í Gjástykki og við Leirhnjúk.

Vefur Landverndar

Vefur Skipulagsstofnunar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert