Leið Buchheits reyndist ekki fær

Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, heilsar Lee Bucheit í dag. Á …
Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, heilsar Lee Bucheit í dag. Á milli þeirra er Ásmundur Einar Daðason, þingmaður VG. mbl.is/Billi

Fjármálaráðuneytið segir, að  sú leið í Icesave-málinu, að bíða þar eignir þrotabús Landsbankans séu komnar í verð hafi verið lögð til af íslensku samninganefndinni en alfarið hafnað af bæði Bretum og Hollendingum.

Lee Buchheit, bandarískur sérfræðingur í skuldaskilum, kom á fund fjárlaganefndar Alþingis í dag og lýsti þar þeirri skoðun, að ótímabært væri að ræða skilmála Icesave-skuldar Íslands fyrr en ljóst sé hvað fáist fyrir eignir Landsbankans og hvað standi þá eftir. Ekki sé hægt að fullyrða neitt um viðbrögð Breta og Hollendinga ef Íslendingar hafni samningnum en skynsamt fólk eigi að geta komist að skynsamlegri niðurstöðu.

Fjármálaráðuneytið segir að leið Bucheits hafi verið reynd og hún hafi ekki reynst fær. Í staðinn hafi Bretar og Hollendingar fallist á, að ekki kæmi til greiðslu úr ríkissjóði á sjö ára tímabili, hvorki vegna vaxta né höfuðstóls, og gæfist þar með svigrúm til að hámarka virði eigna þrotabús Landsbankans.

Samkvæmt mati skilanefndar Landsbanks er gert ráð fyrir 83% endurheimtum af höfuðstól en íslenska samninganefndin hefur miðað við 75% endurheimtur.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði í fréttum Ríkisútvarpsins, að hann hefði rætt við Bucheit í dag og hugmyndir hans væru áhugaverðar. Hins vegar væri ekki hægt að breyta um kúrs í málinu úr því sem komið væri. 

Steingrímur sagðist hafa upplýsingar um að afgreiðsla þingsályktunartillögu um ríkisábyrgð vegna Icesave-samninganna sé á lokastigi í fjárlaganefnd Alþingis og ljúki væntanlega á morgun eða föstudag. Málið komi hins vegar varla til afgreiðslu á Alþingi fyrr en í næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka