Fullt var út úr dyrum á félagsfundi Vinstri grænna í suðvesturkjördæmi með þingmönnum í gærkvöldi.
Mikill hiti var í fundargestum og ljóst að algjörlega skipti í tvö horn með afstöðu þeirra til Icesave-samningsins; sumir töldu farsælast að samþykkja hann sem fyrst svo hægt væri að snúa sér að uppbyggingu landsins en aðrir studdu stífa fyrirvara í anda þess sem Ögmundur Jónasson hefur talað fyrir.
Nýlegt samþykki Alþingis þess efnis að ganga til viðræðna við Evrópusambandið var einnig til umræðu og kölluðu sumir viðstaddra í því samhengi eftir auknu samráði við grasrótina. Einnig kom fram ósk félagsmanna um að Vinstri grænir beittu meiri róttækni til þess að ná fram réttlæti. Var í því samhengi sérstaklega nefnd frysting eigna auðmanna.
Margir fundarmanna áréttuðu óskoraðan stuðning sinn við ríkisstjórnarsamstarf VG og Samfylkingar.