Segir vinnubrögð í umhverfisnefnd til skammar

Unnur Brá Konráðsdóttir, Sjálfstæðisflokki og Þór Saari Borgarahreyfingunni á Alþingi.
Unnur Brá Konráðsdóttir, Sjálfstæðisflokki og Þór Saari Borgarahreyfingunni á Alþingi. mbl.is/Ómar

Þingmenn Sjálfstæðisflokks gagnrýndu harðlega á Alþingi í dag, að meirihluti umhverfisnefndar þingsins skyldi hafa afgreitt þingsályktunartillögu um náttúruverndaráætlun frá 2009 til 2013 út úr nefndinni í dag nánast án umfjöllunar.

Unnur Brá Konráðsdóttir sagði að nefndin hefði aldrei fjallað sjálfstætt um málið og spurði hún Atla Gíslason, þingmann VG og formann umhverfisnefndar, hvort þetta væru fagleg vinnubrögð og hvers vegna nýir þingmenn þyrftu að þola svona lagað. Sagði Unnur Brá að þetta væri til skammar.

Atli sagði, að verið væri að fjalla um áætlun og væri hún ekki samþykkt nú væri engin áætlun í gangi fyrir árið í ár þar sem síðasta áætlun hefði runnið út um síðustu áramót.  Atli sagði að málið hefði fengið faglega umfjöllun á síðasta þingi og þingið hlyti að geta byggt á vinnu fyrri þinga.

Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, sem situr í umhverfisnefnd, sagði að nefndin hefði lokið umfjöllun um málið á síðasta þingi. Á þessu þingi hefði nefndin sótt 40 nýjar umsagnir og fjallað um 20 umsagnir frá síðasta þingi. Einnig hefðu 6 manns komið á fund nefndarinnar. „Það voru því 60-70 umsagnir reifaðar fyrir nefndinni. Ef það eru ófagleg vinnubrögð skal ég hundur heita," sagði Magnús Orri. 

Bæði Birgir Ármannsson og Guðlaugur Þór Þórðarson tóku undir gagnrýni Unnar. Sagði Birgir að sér hefði þótt ræða Atla nokkuð ósvífin en Magnús Orri hefði slegið allt út þegar hann lýsti þessu sem sérstaklega faglegum vinnubrögðum. Og Guðlaugur Þór sagði, að spurningin væri hvaða tegundaheiti af hundi Magnús Orri vildi velja sér því það væri ekki nokkur leið að kalla þetta fagleg vinnubrögð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert