Mikið hefur þokast í samkomulagsátt varðandi fyrirvara við Icesave-samninginn. Það er þó næsta víst að ekki næst samkomulag um fyrirvara nema þeir taki bæði til efnahagslegra og lagalegra þátta samningsins og kalli á nýjar viðræður af einhverju tagi við Breta og Hollendinga.
Birkir Jón Jónsson varaformaður Framsóknarflokksins segist vonast eftir samkomulagi á næstu dögum. Það þurfi að ræða við Breta og Hollendinga að nýju. Hann vonist til að fulltrúar allra stjórnmálaflokka hafi einhverja aðkomu að þeim viðræðum.
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins segir erfitt að lesa í stöðu Icesave - málsins eins og hún sé í dag. Stóra vandamálið sé að ríkisstjórnin hafi skrifað undir samning sem ekki sé meirihluti fyrir í þinginu. Það vandamál sé af þeim toga að það taki tíma að leysa það. Nú er spurningin hvort athugasemdir stjórnarandstöðunnar fái loksins hljómgrunn á þessum forsendum.
Birkir Jón segist ekki telja að ríkisstjórnin þurfi að taka pokann sinn þótt samningurinn haldi ekki. Málið sé miklu stærra en ríkisstjórnin og þótt menn nái því fram að gengið verði til viðræðna að nýju eigi það ekki að þurfa að hafa nein áhrif á stöðu ríkisstjórnarinnar.
Birkir Jón er ekki ánægður með að Jóhanna Sigurðardóttir telji sig ekki þurfa á stjórnarandstöðunni að halda í málinu. Það séu dapurleg skilaboð. Hann bendir þó á að hún hafi líka talið æskilegt að ná breiðu samkomulagi. Bjarni Benediktsson segir alveg rétt að ríkisstjórnin þurfi ekki á stjórnarandstöðunni að halda. Hún sé samt að óska eftir stuðningi og það þurfi ekki að koma á óvart að stuðningur sjálfstæðismanna sé háður því að það sé tekið tillit til þeirra athugasemda sem þeir hafi gert.