„Því er ekki að leyna að þetta starf er að mörgu leyti draumastarf fyrir mig, enda er ég með verkfræðibakgrunn sem skiptir miklu máli í þessu starfi,“ segir Hörður Arnarson sem tekur við forstjórastöðu Landsvirkjunar eigi síðar en 1. janúar n.k.
Hörður segir umsvif fyrirtækisins, og geta til þess að ráðast í framkvæmdir, ráðast af aðgengi að lánsfé. „Það er erfitt um vik á fjármálamörkuðum í augnablikinu, en undirliggjandi rekstur er traustur. Sjóðstreymið er gott og fyrirtækið mun gegna mikilvægu hlutverki hér á landi á næstu misserum.“
Hörður segist í raun „taka við keflinu“ af Friðriki Sophussyni og það sé ekki í spilunum stefnubreyting hjá fyrirtækinu. „Árið 2007 ályktaði stjórn fyrirtækisins á þann veg að stefnan væri sú að breikka út tekjustofna fyrirtækisins, þ.e. að fá viðskiptavini inn í nýjum geirum. Það er stjórnarinnar að ákveða stefnu fyrirtækisins og hún svarar fyrir hana út á við en ég tel mikla möguleika vera fyrir hendi að hálfu Landsvirkjunar, til framtíðar litið. Landsvirkjun er stórt og fyrirferðamikið fyrirtæki og það er ekki óeðlilegt þó það sé umdeilt, eða hafi verið það á einhverjum tímapunkti. Ég hlakka til þess að hefja störf með því hæfa starfsfólki sem starfar hjá fyrirtækinu.“