„Ég hef heyrt orðróm þess efnis í morgun, að við þingmenn Borgarahreyfingarinnar höfum verið að kalla eftir afsögn Þráins [Bertelssonar]. Það er alrangt. Við erum að einbeita okkur að Icesave-málinu sem er miklu mikilvægara en meintur alvarlegur ágreiningur í okkar hópi,“ segir Þór Saari, þingmaður Borgarahreyfingarinnar.
Ósætti hefur verið innan fjögurra manna þingflokks Borgarahreyfingarinnar að undanförnu. Þráinn Bertelsson hefur deilt á Margréti Tryggvadóttur, Birgittu Jónsdóttur og Þór Saari fyrir að greiða atkvæðu gegn yfirlýstu stefnumáli hreyfingarinnar, um að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ekki hefur tekist að sætta deilurnar innan þingflokksins. Þá hefur framkvæmdastjóri þingflokks Borgarahreyfingarinnar, Jóhann Kristjánsson, hætt störfum eftir þriggja mánaða starf.
Þór Saari segir stór mál vera til umfjöllunar hjá Alþingi sem krefjist þess að þingmenn hreyfingarinnar séu með hugann við störf sín. „Ágreiningur innan Borgarahreyfingarinnar hefur verið blásinn upp í fjölmiðlum. Núna skiptir öllu að vinna faglegu að Icesave-málinu. Allt annað er aukaatriði í augnablikinu,“ sagði Þór í samtali við mbl.is.